Nýsköpunarfyrirtækið Hefring Marine, sem hefur þróað og markaðssett snjallsiglingakerfi sem nýtir rauntímagögn til að bæta öryggi, eldsneytisnýtingu og rekstur báta og smærri skipa, hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands í ár.
Magnús Þór Jónsson, prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, er einn þriggja stofnenda fyrirtækisins sem hefur átt í afar góðu samstarfi við HÍ, m.a. um starfsþjálfun nemenda.
Hefring Marine var stofnað árið 2018 og hefur á skömmum tíma náð umtalsverðum árangri á alþjóðlegum markaði. Upphaf starfseminnar má rekja til rannsókna á höggbylgjum og sjólagi í samhengi við siglingarhraða hraðskreiðra ferðaþjónustubáta. Þær rannsóknir urðu grunnurinn að þróun á IMAS® (Intelligent Marine Assistance System) snjallsiglingakerfi fyrirtækisins sem nýtir gervigreind og gögn frá ýmsum skynjurum og mælitækjum um borð í bátum og skipum til að birta skipsstjórnendum og flotastjórum rauntímaleiðsögn um fjölmarga þætti sem varða öryggi, eldsneytisnýtingu, viðhald og rekstur. Kerfið nýtist m.a. til að aðlaga siglingarhraða að aðstæðum og sjólagi og koma í veg fyrir högg sem geta valdið alvarlegum slysum, besta eldsneytisnotkun miðað við aðstæður, vakta búnað og fylgjast með bilanaskilaboðum, skilgreina siglingasvæði og ýmislegt annað sem nýtist skipsstjórnendum- og flotastjórum á hverjum tíma.
Félagið hefur tryggt öfluga hugverkavernd með einkaleyfum í Evrópu og Bandaríkjunum, þar á meðal fyrir aðferðir og kerfi til bylgjumælinga og greiningar á höggáhrifum. Vörumerkin IMAS og Hefring Marine hafa einnig verið skráð á helstu markaðssvæðum.
Starfsemi fyrirtækisins hefur vaxið hratt á undanförnum árum, með stöðugum tekjuvexti og fjölgun starfsmanna, einkum við rannsóknir og þróun. Fyrirtækið hefur skapað sér traust á erfiðum markaði og kerfi þess er nú notað af björgunaraðilum, sjóherjum, útgerðum, bátaframleiðendum og ferðaþjónustuaðilum um allan heim, þar á meðal í Noregi, Svíþjóð, Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Ítalíu og á Íslandi.
Nýsköpunarverðlaunin Íslands eru veitt af Nýsköpunarsjóðnum Kríu, Íslandsstofu, Hugverkastofunni og Rannís til félaga sem skara fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna, hugvits og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu.