Header Paragraph

Háskóli Íslands sá sjöundi besti í heiminum á sviði fjarkönnunar 

Image
Háskólatorg

Háskóli Íslands er samtals á 14 listum yfir fremstu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum samkvæmt hinum virta lista Shanghai Global Ranking of Academic Subjects fyrir árið 2021. Skólinn er í allra fremstu röð á sviði fjarkönnunar og í hópi þeirra 45 bestu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði. Skólinn hefur nú verið einn íslenskra háskóla á listanum fimm ár í röð. Samkvæmt listunum í ár er Háskóli Íslands sá sjöundi besti í heiminum á sviði fjarkönnunar en hann hefur verið meðal 10 bestu á því sviði frá því að byrjað var að birta þessa lista árið 2017. Fjarkönnun felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar.

Samtökin ShanghaiRanking Consultancy hafa um árabil birt lista yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum og jafnframt lista sem tekur mið af heildarframmistöðu þeirra, svonefndan Shanghai lista. Við röðun háskóla á listana styðjast samtökin við ýmsa þætti í starfsemi þeirra, þar á meðal birtingu vísindagreina í virtum fræðitímaritum, fjölda tilvitnana annarra vísindamanna í rannsóknir á vegum skólans, alþjóðlegt samstarf, frammistöðu háskóla út frá starfsmannafjölda og fjölda starfsmanna sem hjóta vísindaverðlaun fyrir framlag sitt innan einstakra fræðagreina.

Shanghai-listinn er annar af tveimur virtustu og áhrifamestu matslistunum yfir bestu skóla heims. Hinn er Times Higher Education World University Rankings og hefur Háskóli Íslands verið á honum í áratug. Lista ShanghaiRanking Consultancy sem nær til fræðigreina og upplýsingar um grundvöll matsins má nálgast á heimasíðu ShanghaiRanking Consultancy.