Margrét Valdimarsdóttir

„Á mínum vinnustað er mikið af fyrrverandi og núverandi íþróttafólki og við höfum oft rætt það hvort íþróttastarf nýtist sem reynsla inn í atvinnulífið. Persónulega vinn ég sem verkefnastjóri með ólíkum sérfræðingum, forriturum og bisnessfólki og hef mikinn áhuga á hvernig við fáum fólk til að vinna saman og ná fram því besta í teymi,“ segir Margrét Valdimarsdóttir sem var í hópi þeirra sem tóku við brautskráningarskírteinum sínum frá Háskóla Íslands nú í lok október. Í meistararitgerð sinni í iðnaðarverkfræði skoðaði Margrét framúrskarandi teymi í íþróttum og atvinnulífi og kannaði hvaða eigileika teymin teldu sjálf gera þau framúrskarandi.

Margrét starfar hjá Creditinfo og á sömuleiðis að baki langan feril sem handboltaleikmaður með ÍR. „Ég var í handbolta til 25 ára aldurs og var og er enn forvitin hvort sú reynsla nýtist í störfum mínum í atvinnulífinu. Út frá þessum pælingum fæddist hugmyndin af verkefninu,“ segir hún.

Rannsóknina vann hún undir leiðsögn Rögnvalds Sæmundssonar, prófessors og nú aðstoðarrektors. „Ég tók svokölluð hálf-stöðluð viðtöl við einstaklinga úr framúrskarandi teymum úr atvinnulífinu annars vegar og íþróttum hins vegar. Á kerfisbundinn hátt voru eiginleikar teymanna dregnir úr viðtölunum og flokkaðir í samræmi við fræðigrunn verkefnisins. Til þess að fá nákvæmari niðurstöður þrengdi ég skilgreiningarnar á sviðunum og skoðaði einungis lið í boltaíþróttum og hugbúnaðarteymi,“ útskýrir Margrét sem ræddi fulltrúa úr tveimur liðum úr boltaíþróttum, karlaliði Víkings í knattspyrnu og kvennaliði Vals í handknattleik, og tvö hugbúnaðarteymi, annars vegar innan Creditinfo og hins vegar Trackwell, alls tólf einstaklinga.

Niðurstöðurnar sýna að sögn Margrétar bæði hvaða eiginleikum sviðin deila og hvað er ólíkt á milli sviða. „Mjúkir“, félagslegir þættir á borð við samvinnu, liðsheild, góðir liðsfélagar og opin samskipti gegna lykilhlutverki í því að gera teymi framúrskarandi á báðum sviðum. Það gera líka forysta og strúktúr í kringum teymið en þessir þættir eru mjög ólíkir í eðli sínu á milli íþróttaliðanna og hugbúnaðarteymanna. Þetta lýsir sér meðal annars í því að stjórnendur í hugbúnaðarteymunum gefa fólki rými til að leysa sín verkefni en styðja við og stíga inn í þegar þörf er á. Þjálfarar íþróttaliðanna leiða hins vegar með miklum aga og fastmótuðum strúktúr,“ bendir Margrét á.

Hún segir einnig áhugavert að hugbúnaðarteymin hafi nefnt ákveðna þætti sem „undirstöðuatriði“ í vinnu framúrskarandi teyma og hafi talað um þá eins og þeir væru nánast gefnir. „Þessa sömu þætti lögðu íþróttaliðin töluverða áherslu á. Þetta eru metnaður einstaklinga, gæði einstaklinga, áhrif frá yfirstjórn og umgjörð og aðstaða teymisins,“ segir hún.

Aðspurð hvernig rannsóknin get nýst bendir Margrét á að hún styðji það að íþróttastarf og jafnvel annað félagsstarf geti talist til reynslu á atvinnumarkaði. „Mögulega getur hún vakið hugmyndir annarra rannsakenda að frekari rannsóknum á teymum í atvinnulífi í samanburði við teymi í íþróttum,“ segir hún enn fremur.

Nám samhliða vinnu er afar krefjandi en þar að auki eignaðist Margrét tvö börn á námstímanum. Aðspurð hvað taki nú við að loknu námi segist Margrét munu halda áfram að vinna hjá Creditinfo, þar sem hún hefur verið frá því hún lauk BS-námi árið 2019. „Ég hlakka bara til að vera „bara“ í vinnu samhliða því að vera strákamamma,“ segir hún að endingu.

Share