Header Paragraph

Lotta María Ellingsen hlýtur styrk úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur

Image
Háskólatorg

Lotta María Ellingsen, dósent við Rafmagns- og töluverkfræðideild var á meðal þriggja annara sem hlutu á dögunum styrk úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands.

Rannsókn Lottu miðar að því að þróa sjálfvirka skimunaraðferð sem spáir fyrir um áhættu á mjaðmarbroti út frá tölvusneiðmyndum. Beinþynning er viðvarandi sjúkdómur sem hefur mikil áhrif á lífsgæði eldra fólks en mjaðmarbrot er það sem hefur einna mest félagsleg áhrif þar sem langan tíma getur tekið að jafna sig eftir slíkt brot. Rannsóknarhópurinn hefur þegar þróað skimunaraðferð sem spáir fyrir áhættu fólks á mjaðmarbroti út frá tölvusneiðmyndum. Fyrir þessa aðferð þarf að merkja lærlegg í tölvusneiðmyndum á afar nákvæman hátt og hefur hópurinn nú þróað aðferð sem merkir lærlegginn á sjálfvirkan og hraðvirkan hátt með hjálp gervigreindar. Í verkefninu verður þessi nýja merkingaraðferð nákvæmnisprófuð og síðan innleidd inn í skimunaraðferðina. Það mun gera hana algerlega sjálfvirka og stuðla að því að hægt verði að nota aðferðina í heilbrigðiskerfinu til að spá fyrir áhættu eldra fólks á mjaðmarbroti. 

Samstarfsaðilar Lottu við rannsóknina eru Benedikt Helgason, Vilmundur Guðnason, Páll Ásgeir Björnsson, Halldór Pálsson og fleiri. 

 

Um sjóðinn

Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918, d. 13. júní 2006) árið 2003 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 

Image
Þau María Sigurðardóttir, Halldór Jónsson jr. og Lotta María Ellingsen tóku við styrkjunum úr hendi Jóns Atla Benediktssonar rektors í Hátíðasal Háskóla Íslands í upphafi vikunnar. MYND/Kristinn Ingvarsson