Meistaradagur Verkfræðistofnunar haldinn í Grósku
Meistaradagur Verkfræðistofnunar fór fram í Grósku síðastliðinn þriðjudag. Á deginum var haldin veggspjaldasýning þar sem meistaranemar í verkfræði og tölvunarfræði sem brautskrást þann 25. júní næstkomandi kynntu meistaraverkefni sín.
Gunnar Stefánsson, formaður stjórnar Verkfræðistofnunar HÍ setti meistaradaginn og Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs flutti stutt erindi. Erlingur Brynjúlfsson frá Controlant, og brautskráður meistaranemi í Rafmagns- og tölvuverkfræði flutti einnig erindi sem og Svana Helen Björnsdóttir formaður stjórnar Verkfræðingafélags Íslands, en félagið veitti verðlaun fyrir 3 bestu veggspjöldin.
Verðlaun hlutu:
• Andrea Rakel Sigurðardóttir fyrir verkefnið Greining hringorma með fáum fyrirmyndum á fjölrófsmyndagögnum
• Kári Torfason fyrir verkefnið Tölulegar straumfræðihermanir á skurðarvél frá Völku
• Magnea Freyja Kristjánsdóttir fyrir verkefnið Uppskera þörunga með himnusíun: ferilhönnun og endurheimt næringarefna
Við óskum þeim hjartanlega til hamingju og þökkum Verkfræðingafélagi Íslands kærlega fyrir samstarfið.










