
Tuttugu og tveir meistaranemar brautskráðust frá verkfræðideildum Háskóla Íslands þann 14. júní síðastliðinn. Veggspjaldakynning á lokaverkefnum þeirra fór fram á Meistaradegi Verkfræðistofnunar í Grósku þann 23. maí. Þar gafst gestum tækifæri til að kynnast fjölbreyttum og spennandi verkefnum nemenda, sem endurspegla þá miklu nýsköpun og kraft sem einkennir rannsóknir í verkfræði og tölvunarfræði við HÍ.
Háskólinn á í góðu samstarfi við Verkfræðingafélag Íslands og á Meistaradeginum afhenti Helgi Gunnarsson, formaður stjórnar félagsins, verðlaun fyrir þrjú framúrskarandi lokaverkefni.
Verðlaun fyrir besta veggspjaldið hlaut Áslaug Þóra Halldórsdóttir, meistaranemi í rafmagns- og tölvuverkfræði, en lokaverkefni hennar var Þróun tækja sem auðvelda niðursetningu bauja og ferilvöktun bauja í notkun.
Einnig hlaut Margrét Snorradóttir, meistaranemi í reikniverkfræði verðlaun fyrir veggspjald sem sýndi niðurstöður rannsóknar hennar á sköpunargáfu og ADHD, en verkefnið var unnið í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu.
Þá hlaut Thanh Ha Hoang, meistaranemi í byggingaverkfræði, verðlaun fyrir verkefnið Seismic Performance of Mid-rise Concrete Residential Buildings in Reykjavík.
Við óskum öllum meistaranemum sem hafa brautskrást frá verkfræðideildum skólans á þessu kennsluári innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim velfarnaðar í framtíðinni.