
Þegar rignir myndast vatnsflaumur af þökum og götum sem getur flætt inn í hús og valdið skemmdum á húsum og innbúi. Hefðbundna leiðin til að draga úr slíkri slysa- og tjónahættu er að fanga og flytja vatnið í lagnakerfi neðanjarðar út í næstu á eða strandsjó. Slík mannvirki eru dýr og mörg hver eru komin til ára sinna. Auk þess geta þau ekki annað auknu álagi, til dæmis vegna þéttingar byggðar eða aukinnar úrkomuákefðar sem fylgir hnattrænni hlýnun.
„Á síðustu áratugum hefur ný hugmyndafræði um blágrænar ofanvatnslausnir verið að ryðja sér til rúms en hún byggir á því að nýta vatn sem auðlind þar sem hún fellur í stað þess að flytja það í burtu, meðal annars með byggingu regnbeða (e. bioretention cells),“ segir Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild Háskóla Íslands. Hún leiðir nú rannsókn á margþættum ávinningi blágrænna innviða í borg.
Regnvatn nýtt sem auðlind
Blágrænar ofanvatnslausnir herma eftir náttúrulegri hringrás vatns, þar sem vatn er geymt tímabundið í landdældum og í jarðvegi. Þegar vatnið rennur gegnum jarðveginn síast þungmálmar og olíusambönd úr vatninu. „Á yfirborði má gróðursetja fjölbreyttar plöntur, runna og tré sem auka fegurðargildi og vistfræðilega fjölbreytni í borg og stuðla að bættri andlegri líðan íbúa. Gróðurinn og jarðvegurinn geta jafnframt dregið úr kolefnisfótspori borga með því að binda kolefni. Því eru blágrænir innviðir bæði mótvægis- og aðlögunaraðgerðir vegna loftslagsbreytinga,“ útskýrir Hrund.
Byggðu regnbeð á háskólasvæðinu
Í grundvallaratriðum gengur rannsóknin út á að fylgjast með virkni regnbeða sem eru byggð eftir viðurkenndum aðferðum erlendis. Regnbeð eru nokkurs konar gróðurdældir sem taka við, geyma og hreinsa vatn af litlum húsþökum eða stærri svæðum eins og vegum eða bílastæðum í rigningu. „Við ákváðum að skoða regnbeð af því að þau eru algengasta útfærslan á blágrænum ofanvatnslausnum í borg og vegna fjölhæfni þeirra, en þau geta verið lítil eða mjög stór (800 m2), innan lóðar eða í almenningsrými meðfram gangbrautum, á bílastæðum eða við vegkanta,“ segir Hrund.
„Við byggingu regnbeðanna reyndum við að hámarka gæði jarðvegsins og settum einnig upp dren til að auka ísigseiginleika hans. Við erum með mismunandi útfærslur af gróðri á yfirborði regnbeðanna, til dæmis fjölbreytt úthagagras svo og hágróður eins og íslenskan loðvíði, blágresi og fjalldalafífil,“ útskýrir Hrund og heldur áfram: „Við stefnum að því að mæla vatnafræðilega og vistfræðilega virkni reglulega yfir tveggja ára tímabil, með sérstakri áherslu á vetrartímann þegar frost er í jörðu og snjór þekur yfirborðið. Auk þess mælir rannsóknarhópurinn raka- og hitastig jarðvegsins með síritandi mælum og fylgist með veðurfari, snjó og frosti á yfirborði.