
Torfbæir eru einn helsti byggingar- og menningararfur Íslendinga. Þeir hafa sumir staðið í hundruð ára og gefa okkur innsýn inn í líf forfeðra okkar. Nú á dögum eru þetta helst safngripir sem ber að vernda og það getur verið flókið. Torf getur verið óútreiknanlegt byggingarefni, þar til núna. Í nýrri rannsókn er nefnilega í fyrsta sinn verið að greina torfbæi með aðferðum byggingarverkfræðinnar.
Vilja fylgjast með mörgum húsum í einu
Dórótea Höeg Sigurðardóttir, lektor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, vinnur ásamt fleiri sérfræðingum við HÍ og Þjóðaminjasafnið að rannsókn sem á að auka skilning okkar á byggingareðlisfræði og burðarþoli torfbæja með það að markmiði að bæta varðveislu þeirra. Þetta eru sérfræðingar í íslenskum byggingararfi, varðveislu bygginga, byggingarverkfræði, byggingareðlisfræði, mælitækni í byggingum og efnisfræði bygginga. Verkefnið er bæði unnið á rannsóknarstofu og á vettvangi.
„Þetta er samstarfsverkefni milli Þjóðminjasafns Íslands og Háskóla Íslands. Þau sem sem voru yfir húsasafninu hjá Þjóðminjasafninu vantaði byggingatæknilegar ráðleggingar og að geta búið til einhvers konar aðferðir til þess að geta fylgst með mörgum húsum í einu og geta forgangsraðað hvaða húsum þyrfti að viðhalda á hverjum tíma,“ segir Dórótea um upphaf samstarfsins.
Um allan heim má finna einhvers konar moldarbæi og torfbæir eru ekki alíslensk fyrirbæri en Dórótea segir enga vera af sama meiði og þá íslensku. Rannsóknir hafi verið gerðar á gömlum byggingarhefðum í löndum Evrópusambandsins en að enginn hafi byggt nákvæmlega eins og Íslendingar.
Munur á torbæjum eftir landshlutum
Rannsóknin er sú fyrsta á íslenskum torfbæjum þar sem reynt er að nota aðferðir byggingarverkfræðinnar til þess að greina þá. Markmiðið er að þróa aðferðir til að vakta ástand torfbæja til þess að hægt sé að byggja ákvarðanir um viðhald þeirra á gögnum. Þetta er gert með því að mæla raka og hitastig ásamt því að skoða hreyfingar á timburgrindinni í húsunum með þrívíddarskanna með það fyrir augum að skoða ástandið á torfinu og átta sig betur á byggingarefninu. Markmiðið er einnig að þróa þessar aðferðir við mælingar svo hægt sé að fylgjast með mörgum húsum í einu og viðhalda þeim á árangursríkari hátt.
Verkefnið hlaut styrk í upphafi árs 2024 og á vormánuðum voru sett upp mælitæki á Keldum á Rangárvöllum. Það sama var gert að Laufási í Eyjarfirði í október og þar er því búið að safna gögnum í um mánuð. Dórótea bendir á að áhugavert sé að kanna muninn torfbæjum á ólíkum landssvæðum og segir að helsta ástæða þess að hafi byrjað á húsum bæði fyrir norðan og sunnan hafi verið sú að þar sé munur á þykkt á torfi og hvernig uppbyggingin á þaki sé ólík.
Dórótea segir að munurinn á torfbæjunum snúist að einhverju leyti um veðurfar. „Það er hægt að byggja úr meira torfi fyrir norðan því þar eru veturnir venjulega kaldari og ekki eins umhleypingasamir. Torfið heldur því formi sínu betur. Fyrir sunnan eru bæirnir oftast úr grjóti og torfi og menn reyna að þekja stærstan hluta þeirra með torfþekju til þess að vernda gegn vatni en fyrir norðan er þurrara og kaldara þannig að það er ekki eins mikil þörf á að passa að moldin skolist ekki burt,“ bendir hún á.
Verkefnið er tiltölulega nýfarið af stað og því ekki komnar niðurstöður. „Við sjáum í frumgreiningu að það var mjög blautt sumar og torfið er mjög blautt. En annars höfum við ekki farið í neinar dýpri greiningar enn þá. Við erum helst að safna gögnum áður en við förum í miklar greiningar.“