
Eitt það brýnasta sem vísindafólk í veröldinni gerir er að leita lausna á verkefnum og vandamálum sem tengjast samfélögum, lífríkinu öllu eða umhverfinu sem allar lífverur á jörðinni fá afnot af frá kynslóð til kynslóðar.
Vísindamaðurinn Benedikt Halldórsson tilheyrir svo sannarlega þessum hópi en allan sinn feril hefur hann rannsakað jarðskjálfta sem eru nánast hversdagslegir hér á Íslandi. Bara í þessari viku mars 2023, þegar þetta er skrifað, mældust t.d. rúmlega 360 jarðskjálftar með mælakerfi Veðurstofu Íslands. Það er meira að segja lægri tala en í vikunni á undan þegar um 500 skjálftar mældust.
Hérlendis er það gjarnan þannig að það er ekki fyrr en þessir skjálftar fara að stækka að þeir valda fólki uggi og það kippist við eins og landið sjálft. En jarðskjálftar geta svo sannarlega haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar þegar þeir eru harðir og nærri byggð og mannvirkjum, eins og heimsbyggðin var nýlega minnt á með hörmulegum afleiðingum hinna gríðarstóru jarðskjálfta í Tyrklandi í febrúar.
Allir íbúar á Reykjanesi – og raunar víðar á landinu – urðu varir við skjálftana sem tengdust aðdraganda eldsumbrotanna í Geldingadölum 2021 og 2022 þótt mest hafi vissulega reynt á þá sem búa næst upptökum skjálftanna, sér í lagi þeirra stærstu. Jarðskjálftar eins og þeir sem þá gengu yfir eru uppspretta rannsókna og mælingar sem þeim tengjast verða síðan undirstaða nýrra líkana sem sett eru fram til að meta betur það sem getur gerst í næstu jarðskjálftum af svipuðum toga.
Vísindamenn hafa í gegnum áratugi varpað ljósi á ólíka þætti sem orsaka jarðskjálfta, t.d. þá sem tengjast kvikuhreyfingum og landrisi sem er stundum undanfari eldsumbrota eins og í Geldingadölum á Reykjanesi. Landrek er þess eðlis að Ísland er á flekaskilum þar sem hluti landsins skríður til austurs og hinn hlutinn til vesturs og þessi aðskilnaður á sér stað með sama hraða og neglur vaxa á fingrum okkar. Við átökin verður spenna sem hleðst upp og þegar skorpan brestur undan átökunum í jarðskjálftum sem geta orðið stórir eins og við þekkjum á Suðurlandi og undan Norðurlandi. Á þessum tveimur svæðum geta jarðskjálftar orðið stærstir á Íslandi, oft með nokkuð reglulegu millibili. Rannsóknir vísindamanna og mælingar þeirra sýna okkur fram á þetta.