Von á yfir 2.500 vísindamönnum á fjarkönnunarráðstefnu 2027
Alþjóðlega ráðstefnan International Geoscience and Remote Sensing Symposium (IGARSS) verður haldin í Reykjavík sumarið 2027. Ætla má að yfir 2.500 virtir vísindamenn og fagfólk á sviði fjarkönnunar frá öllum heimshornum sæki ráðstefnuna.
IGARSS-ráðstefnan er haldin á vegum IEEE Geoscience and Remote Sensing Society (GRSS), alþjóðlegs félags á sviði fjarkönnunar. Það er eitt 39 félaga innan Institute of Electrical and Electronics Engineers (IEEE), stærsta fagfélags rafmagns- og tölvuverkfræðinga í heiminum. GRSS var stofnað árið 1961 og og aðild að því eiga yfir 5.000 meðlimir í 94 löndum. Það vinnur að því að efla rannsóknir, hagnýtingu og menntun á sviði fjarkönnunar í þágu samfélaga, en fjarkönnun felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim margs konar upplýsingar um yfirborð jarðar og breytingar á því.
IGARSS 2027 fer fram dagana 4.–9. júlí 2027 í Hörpu og Háskóla Íslands. Meginþema ráðstefnunnar hverfist um aukinn skilning á og viðbrögð við umhverfisáskorunum á alþjóðavettvangi með aðferðum fjarkönnunar. Sérstök áhersla er lögð á miklar áskoranir á norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga, þar á meðal bráðnun íss, en áhrifa breytinganna gætir langt út fyrir norðurskautið og raunar um alla plánetuna. Á dagskrá ráðstefnunnar eru kynningar á rannsóknarniðurstöðum, fyrirlestrar og umræðufundir þar sem áhersla er á fjarkönnun og úrvinnsluaðferðir fyrir fjarkönnunargögn.
Aðalstyrktaraðili IGARSS 2027 er Háskóli Íslands en fleiri innlendar og erlendar stofnanir koma að ráðstefnunni. Að auki er ráðstefnan studd af Meet in Reykjavik og KOMUM ráðstefnum. Í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar eru alþjóðlegir sérfræðingar í fjarkönnun undir forystu Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og Magnúsar Arnar Úlfarssonar, prófessors við Háskóla Íslands.